Leita í fréttum mbl.is

Þarfir manneskjunnar.

Ég og mannurinn minn erum búin að baka pönnsur, þeyta rjóma og finna allar sultukrukkur sem til voru á heimilin og sporðrenna nokkrum pönnsum með rjóma og sitthverri tegundinni af sultum og hlaupi.

Það var rababari, rifsber, sólber, allt heimatilbúið og svo voru blönduð berjasulta bakarameistarans og Drottningarsulta. Nokkrar sykraðar líka.

Það væri synd að segja að þetta væri ekki eitt það besta sem ég fæ! Namm.

Ég reyni að vera ekki að hugsa of mikið um það að veðrið er að koma í veg fyrir Reykjavíkurferðir, það er ágætt að hvíla sig heima og hlusta á veðrið og njóta þess að eiga þak yfir höfuðið.

Nú er pabbi minn búin að vera á sjúkrahúsi í einn mánuð eftir að hafa fengið heilablóðfall. Hann er lamaður öðrum megin og hefur misst málið. Hann á erfittt með að tjá sig og gerir það með bendingum með vinstri hendinni. Hann getur verið í hjólastól og er farin að ýta sér áfram á stólnum með vinstra fæti. Hann er líka nýfarin að geta sett svolítinn mat upp í sig með vinstri hendinni en á erfitt oft með að halda matnum uppi í sér, því helmingur munnsins er lamaður líka.

Okkur voru ekki gefnar neinar vonir um að mátturinn kæmi aftur í likamann og hann gæti alls ekki talað aftur. Núna á þó að reyna talþjálfun eða einhverja táknmálsþjálfun svo hægt verði að skilja hann og hann geti tjáð sig um sínar innstu þarfir.

Hann fer ekki í og úr rúmi nema með hjálp tveggja einstaklinga og á klósett líka. Til öryggis er sett bleija á fólk sem lendir í þessu, samt hefur hann þörf fyrir að fara á klósett, en hann þarf hjálp og getur ekki hringt bjöllu heldur bíður hann eftir aðstoð annað hvort eftir rútínu eða þegar munað er eftir honum. Hann er því alveg með sömu umhugsunarþarfir og ungabarn.

Síðast þegar ég kom til hans varð hann óður og uppvægur og sýndi mér alltaf með handapati að hann vildi inn á skolið á ganginum og ég spurði hann hvort hann þyrfti að pissa og hann jánkaði því. Ég rúllaði stólnum inn í stofuna hans, þar er klósett og hringdi á aðstoð og sagði þeim að hann vildi pissa.

Tvær konur opnuðu dyrnar á klósettinu og ætluðu að rúlla honum inn en minn tók í hurðina og stoppaði þær og benti á rúmið sitt. Þær settu hann í rúmið og fóru að taka af honum bleijuna og önnur konan leit á mig og sagði að hann væri rennandi blautur. Hann var settur í nýja bleiju og ákveðið að hann hvíldi sig aðeins í rúminu. En pabbi undi sér engrar hvíldar fyrr en hann var komin aftur úr buxunum og næstum því úr bleijunni, ég reyndi að tala um fyrir honum og stoppa það og tók hann úr einhverjum netbuxum sem voru utan um bleijuna, hélt að það pirraði hann og setti hann aftur í síðbuxur. Hann slakaði á í smátíma og byrjaði aftur að rífa sig úr og nú tókst honum það og þá skildi ég loks hvað var að hrjá hann. Hann var bara brunninn í náranum, takk fyrir.

Þetta tók á, því ég hef aldrei hjálpað föður mínum með neinar af hans þörfum fyrr en nú s.l mánuð. Hann hefur alltaf séð um sig sjálfur og aldrei kvartað undan neinu sem hrjáir hann líkamlega. Ég hringdi aftur á aðstoð og það var borin áburður á hann og hann varð glaður í bragði, fór í stólinn og fram í setustofu að horfa á fréttir í sjónvarpinu.

Það er ótrúlegt að vera komin í þá aðstöðu að vera með foreldri sitt eins og ungabarn, ég er auðvitað þakklát fyrir það að geta gert eitthvað fyrir pabba og hann er líka þakklátur fyrir það og hefur aldrei verið kelnari enda hans leið til að sýna þakklæti sitt.

Það eru líka ótrúlegt að konurnar sem vinna við þessi störf eru góðar og kunna mikið. Mér varð á orði við pabba um daginn að ég hefði bara átt að læra hjúkrun, en auðvitað kemur þetta smátt og smátt. Það sem er erfiðast er að stíga yfir þau mörk sem eru í samskiptum foreldra og barna sem hefur að gera með ákveðna virðingu þ.e.a.s. innri virðingu sem er líkamleg, andleg og hæfileikar sem honum er ekki sama um.  Það verður að breytast í ytri virðingu.

Ég hugsa mikið um æðruleysi þessa dagana því það er það sem pabbi hefur sýnt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Pönnsur hér líka... enda pönnsuveður úti. 

Það hlýtur að taka á að sjá foreldri sitt svo hjálparþurfi.  Þú ert sterk persóna Edda og hjartahlý og ég efast ekki um að þú stendur þig eins vel og hægt er, við þessar erfiðu aðstæður.  Sendi þér og þínum góðar kveðjur.

Anna Einarsdóttir, 9.2.2008 kl. 20:32

2 identicon

Við lesturinn verður mér ljóst mikilvægi fjölskyldueiningarinnar.  Það er skelfilegt að vera í þessari stöðu án ástríkrar fjölskyldu.  Mér finnst hann pabbi þinn afar heppinn.   Gangi ykkur vel vinkona.

Mátt alveg bjalla næst þegar á að skella í pönnsur. 

Elisabet R (IP-tala skráð) 9.2.2008 kl. 21:56

3 Smámynd: Ólöf Jóhanna Pálsdóttir

Edda mín. Leitt að heyra þetta með pabba þinn. Hann á gott að eiga þig að ég veit að þú munt gera það sem í þínu valdi stendur að aðstoða hann. Það er erfitt fyrir fólk sem alltaf hefur getað séð um sig sjálft að verða allt í einu komið í þá aðstöðu að vera algjörlega upp á aðra komnir. Gangi ykkur vel.

Ólöf Jóhanna Pálsdóttir, 9.2.2008 kl. 22:10

4 Smámynd: Gísli Bergsveinn Ívarsson

Edda, leitt að heyra þetta með pabba þinn en þetta er víst gangur lífsins.  Fysrt fæða þau okkur í heiminn og annast okkur fram eftir aldri og síðan tökum við við þegar kemur að því að þau þurfa á okkur að halda.

Held samt að maður sé aldrei tilbúinn þegar kemur að þvi að maður þarf að annast forelda sína.

Vonandi gengur þetta vel.

Gísli Bergsveinn Ívarsson, 9.2.2008 kl. 22:28

5 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Þegar mamma var veik og við systurnar og pabbi vorum hjá henni öllum stundum, hugsaði ég oft til þeirra sem eiga enga eða fáa að, kannski eru bestur stundir sumra inni á sjúkrahúsi þar sem yndislegt starfsfólk sinnir öllum eins og með mikilli virðingu.  Gangi ykkur vel með pabba þinn. 

Ásdís Sigurðardóttir, 9.2.2008 kl. 22:33

6 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Ó Edda mín. En hvað það er leiðinlegt að heyra þetta. Það er auðvitað engin leið að ímynda sér hvernig það er að vera einn daginn sjálfstæður og upp á engann kominn og þann næsta að þurfa að stóla á hjálp annarra til alls. Ég skil svo vel hvað þú meinar.. með að stíga yfir mörkin. Þegar amma mín sem ól mig upp, var komin með alzheimer þá átti ég ofsalega erfitt með að taka að mér hlutverk fullorðna einstaklingsins. Þú mátt svo sannarlega vera stolt af pabba þinum og hann af þér. Gangi ykkur vel.

Jóna Á. Gísladóttir, 10.2.2008 kl. 00:29

7 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Takk fyrir alla hughreystinguna. Þið eruð yndisleg.

Ég er sem betur fer ekki ein með pabba. Mamma heimsækir hann á hverjum degi og svo á ég tvær systur og einn bróður sem koma reglulega til hans ásamt dóttur minni sem er elsta barnabarnið hans. Þessvegna verður mér oft hugsað um það fólk núna (eins og Ásdís segir) sem á kannski á bara eitt eða tvö börn eða jafnvel ekkert barn sem getur heimsótt eða sinnt foreldri sínu.

Ég hugsa líka oft um viðtal sem var í sjónvarpinu fyrir einu til tveimur árum við systkinin, sem bæði eru prestar, ég held Bollabörn sem lýstu því svo vel og einlægt um veikindi pabba síns og hvernig sorgin gefur manni styrk til að líkna.

Edda Agnarsdóttir, 10.2.2008 kl. 00:50

8 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

Svona hefur lífið oft endaskipti....börnin annast foreldrana en ég tek undir orð þín...sorgin gefur styrk til að líkna.....ég annast andlega veikan einstakling sem stendur mér nær, oft er það erfitt en það er á sama tíma þroskandi og gefandi....gangi ykkur vel.....já og hlakka til að fá hjá þér pönnsur í næstu ferð.

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 10.2.2008 kl. 06:09

9 Smámynd: Ingibjörg Friðriksdóttir

Það er ábyggilega erfiðast fyrir þá öldurðu að þiggja þesskonar hjálp, eins og þú segir frá á blogginu þínu.  Maður getur rétt ímyndað sér hvernig það væri.

Þessa helgi byrjaði ég á endurmenntunarnámskeiði í háskólanum sem heitir Sálgæsla og aldraðir.  Séra Sigfinnur Þorleifsson leiðir námskeiðið, og hann er aldeilis frábær, enda sjúkrahúsprestur, sem hefur ábyggilega upplifað allt litrófið í umönnun aldraðra.

Vonandi fær pabbi þinn mátt, til að geta farið í talþjálfun, því það er öldruðum ekki síður en þeim yngri mikilvægt að geta tjáð sig. 

Gangi ykkur vel!

Passið ykkur á pönnsunum og sultunum, þær eiga það til að taka sér óæskilega bólfestu, hér og þar.

Ingibjörg Friðriksdóttir, 10.2.2008 kl. 09:36

10 Smámynd: Ásta Björk Hermannsdóttir

Edda mín.. leiðinlegt að heyra þetta með hann pabba þinn og vonandi fær hann getu til að gera sig skiljanlegann. Og hann er sannarlega heppinn að eiga svona marga góða að, vil bara senda ykkur öllum og Guð gefi ykkur styrk

og svo væri ágætt að fá smá sultuuppskriftir ef þú ert að gera þetta sjálf kona 

Ásta Björk Hermannsdóttir, 10.2.2008 kl. 10:41

11 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Sæl Edda, viðtalið sem að þú vísar í við Bollabörnin, var einmitt við manninn minn, Bolla Pétur og systur hans Jónu Hrönn. Þau, ásamt systkinum sínum og móður, hafa sinnt föður sínum, Bolla Gústavssyni af þvílíkri hlýju og æðruleysi frá því að hann veiktist. Þetta viðtal var alveg frábært og margir komu til þeirra á eftir og þökkuðu þeim fyrir að tala opinskátt um veikindi föður síns sem að var þessi sterki og frábæri maður, prestur í Laufási við Eyjafjörð í 25 ár og þjónaði þar með miklum sóma og varð síðar víglsubiskup á Hólum í 10 ár. Það er ekki auðvelt að horfa upp á svona sterka einstaklinga verða svona hjálparþurfi og til þess að komast í gegnum þetta þarf sterka, samhenta og kærleiksríka fjölskyldu til. Mér sýnist á þínum skrifum að þið hafið einmitt þetta til að bera, það er erfitt að fara inn í þetta hlutverk en um leið getur það líka gefið svo mikið að vera til staðar. Líkamleg snerting, spjall og jafnvel bara að raula fyrir hinn veika skiptir máli, þó að viðbrögðin séu ekki mikil og sýnileg en þá hefur það áhrif þegar fram í sækir. Í sorginni og veikleikanum er nefnilega líka falinn styrkleiki og ef að maður nær að virkja hann þá getur maður tekist á við hluti sem að virðast nánast óyfirstíganlegir!

Gangi þér sem allra best

Sunna Dóra Möller, 10.2.2008 kl. 14:47

12 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Þakka þér fyrir þetta Sunna Dóra. Stundum er ég svo minnislaus á nöfn að mér er farið finnast það skaði. En þetta var merkilegt að þú skulir vera svona náin og tengd. Þetta var gullfallegt viðtal og mjög gefandi.

Pabbi minn er með minnisleysi, sem kom fram í málstoli svona eins og hann gat ekki sett nöfn á fólk og ég/við urðum að geta upp á hvaða manneskju hann var að meina þegar hann sagði frá. Það er ekki laust við að mér finnist megi vera stanslausari umræða um aldraða og sjúkdóma þeirra en ekki bara svona í bylgjum. 

Edda Agnarsdóttir, 10.2.2008 kl. 18:50

13 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Ég er mjög sammála þér að umræðan um sjúkdóma aldraðra megi vera meiri og stöðugri vegna þess að það er stór hluti fólks í samfélaginu að eiga við erfiðleika og sorg í tengslum við þessu mál og margir vita hreinlega ekki hvernig þeir eiga að bera sig við þegar upp kemst um erfiðan sjúkdóm hjá ástvini, svo ég tala nú ekki um minnisleysi og heilabilun t.d. Ég hef heyrt fólk segja að það hreinlega geti ekki heimsótt einstakling sem að það hefur þekkt lengi vegna þess að það er of sárt og það vill muna hann eins og hann var, ekki eins og hann er nú!  

Það að horfa á fólkið sitt hverfa hægt og rólega frá manni er svo sárt. Þess vegna mætti vera meiri og sterkari umræða, að því leyti var það svo sterkt hjá þeim systkinum að koma fram á sínum tíma í stað þess að vera í þögninni.

Bkv.

Sunna Dóra Möller, 10.2.2008 kl. 19:17

14 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Fallegur pistill Edda. Það er sorglegt að horfa uppá það hvernig veikindi og ellihrörnun tekur oft virðuleika og reisn frá fólki. Sorglegast er það fyrir fólkið sjálft og hlýtur að vera ósegjanlega erfitt að sætta sig við sem einstaklingur að missa heilsuna og jafnvel verða ósjálfbjarga og algjörlega uppá aðra kominn. Ég hef upplifað þetta með pabba minn,  síðustu árin sem hann lifði og það tók mjög mikinn toll af manni að horfa uppá heilsu hans fara eins hratt og hún gerði. Virðulegur reffilegur karl sem allir höfðu alltaf treyst á, varð út úr heiminum vegna heilablæðingar og liðagigtar. Maður var enganveginn tilbúinn að sætta sig við andlega hrörnun hans. Það er eins og sorgarferli að fara í gegnum þetta. Góð fjölskyldutengsl eru styrkur í þessu sem svo óskaplega mörgu öðru.

Gangi þér vel Edda mín.

Marta B Helgadóttir, 10.2.2008 kl. 19:30

15 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Sunna Dóra takk fyrir aftur.

Marta, sorgin er mikil og togstreitan er einnig mikill. Stundum er eins og hann hafi alla burði til að geta endurþjálfast  en svo aðra stundina finnst manni það nær tilgangslaust.

Þakka þér fyrir þitt innlegg.

Edda Agnarsdóttir, 11.2.2008 kl. 14:46

16 Smámynd: Kolgrima

Elsku Edda mín, það er sárt að horfa upp á ættingja sína fara svona.

Kolgrima, 11.2.2008 kl. 18:12

17 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Knús á þig Kolgríma/Ragnhildur

Edda Agnarsdóttir, 12.2.2008 kl. 00:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Edda Agnarsdóttir
Edda Agnarsdóttir
Veðrið og lund mín eiga lítið saman að sælda. Ég á mína þoku og blíðviðri inni í mér.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband